27.2.2010 | 13:48
Eyjapistill 18. janúar 1974
Umsjón: Arnþór og Gísli Helgasynir.
1. Gísli ræðir við Einar Hauk Eiríksson skattstjóra um skattamál og skattgreiðslur. Fram kemur að vandamál er að vita hvar sumir dvelja. Rætt um heimflutning skattstofunnar. Fram kemur að um 40% Eyjamanna séu fluttir heim.
2. Arnþór segir frá því að eiginlegir Vestmannaeyingar séu 2230 talsins. Hann les svo tilkynningu.
3. Séra Þorsteinn Lúther Jónsson mælir nokkur orð í tilefni þess að senn er liðið ár frá gosi.
4. Stefán Runólfsson hringir í Arnþór beint í þáttinn. Dæmigert um það, sem gerðist oft í Eyjapistlum að fólk hringdi og samtölum var útvarpað. Stefán ræðir um atvinnulífið í Eyjum og segir frá því hvernig Fiskiðjan kom undan hrauninu.
5. Arnþór segir fréttir frá Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, en þar kemur fram um fjölda báta, sem leggja upp í Eyjum. Fleiri fréttir.
6. Auglýsing frá Þórði Magnússyni á Skansinum um týnda muni.
7. Arnþór les lista yfir þá, sem fengið hafa Viðlagasjóðshús í Breiðholtinu og les svo auglýsingu um týnda muni.
Heildartími 29.15 mín.
27.2.2010 | 13:41
Eyjapistill 21. janúar 1974
Umsjón: Arnþór og Gísli Helgasynir.
1. Arnþór segir frá því að frá og með næstu viku verði Eyjapistill einu sinni í viku. Þá segir hann frá heimflutningi Útvegsbankans til Eyja og afgreiðslu fyrir Vestmannaeyinga í Reykjavík.
2. Arnþór segir frá nokkrum merkisafmælum.
3. Arnþór les kvæðið Óskalandið eftir Pál H. Árnason í Þórlaugargerði, en það barst Eyjapistli í vetur.
4. Gísli talar frá Eyjum og segir frá innbroti í Félagsheimilið við Heiðarveg.
Gísli ræðir við Magnús Magnússon bæjarstjóra á bæjarskrifstofunum m.a. um notkun hitans í hrauninu til kyndingar húsa. Segir frá tilraunum Sveinbjörns Jónssonar í Ofnasmiðjunni við hraunhitaveituna.
Gísli segir frá því að Hótel HB sé að fara í gang með nýjum eigendum.
5. Sagt frá afhendingu æðsta merkis sem óbreyttum borgurum í Bandaríkjunum er veitt, en Sveinn Eiríksson á Keflavíkurflugvelli hlaut það. Jafnframt sagt frá viðurkenningu Vestmannaeyjakaupstaðar til starfsmanna slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli og starfsmanna varnarliðsins. Arnþór segir einnig frá uppgjöri á milli Vestmannaeyinga og Viðlagasjóðs og hreinsun hraunsins.
Heildartími 17,14 mín.
27.2.2010 | 13:36
Eyjapistill 23. janúar 1974
Umsjón: Arnþór og Gísli Helgasynir.
Þátturinn gerður í tilefni ársafmælis gossins.
Í upphafi þáttarins segir að fyrsti Eyjapistillinn hafi verið fluttur 7. febrúar 1973. Hið rétta er að fyrsti þátturinn var fluttur 6. febrúar í umsjón Stefáns Jónssonar fréttamanns sem þá var dagskrárfulltrúi hjá Ríkisútvarpinu. Daginn eftir þann 7. febrúar tóku Arnþór og Gísli við umsjón þáttarins. Gunnar Sigurmundsson prentari (gunnar prent) var fyrst í stað með í gerð þáttanna sem fulltrúi og tengiliður við bæjarstjórn Vestmannaeyja.
1. Gísli hefur þáttinn og kynnir símtal, þegar Páll Helgason bróðir hans hringdi í hann aðfararnótt 23. janúar 1973. Símtalið flutt og Páll lýsir gosinu eins og hann sá það út um gluggann hjá sér og svo önnur lýsing eftir að hann hafði farið að gosstöðvunum. Samtölin hljóðrituð um kl. 2 aðfararnótt 23. janúar og um kl. 3 sömu nótt.
2. Arnþór og Gísli fara í heimsókn til Péturs Guðjónssonar á Kirkjubæ og Lilju Sigfússdóttur konu hans, þar sem þau búa í Garðinum. Þeir ræða við þau og Pétur segir skemmtilega frá því hvernig og hvenær hann varð var við gosið, og hvernig þeim reiddi svo af. Góð lýsing á leiðinni til lands. Pétur og Lilja segja frá dvöl í Elliðaey og Pétur minnist aðeins á braginn Elliðaeyjarbrag. Lilja og Pétur fjalla um ástæður þess að þau flytja ekki aftur heim til Eyja. Á eftir samtalinu er Elliðaeyjarbragurinn leikinn með Árna Johnsen.
3. Arnþór ræðir við Hjálmar Guðnason frá Vegamótum, en Hjálmar sá ásamt Ólafi Grens þegar gosið hófst. Í spjallinu er einnig vikið að Lúðrasveit Vestmannaeyja.
4. Gísli talar frá Eyjum og ræðir við Pétur Ingjaldsson ýtustjóra, sem vinnur við vegalagningu uppi á nýja hrauninu. Samtalið hljóðritað uppi á hrauni 22. janúar 1974. Pétur segir frá því þegar þeir unnu uppi á hrauninu í gosinu.
5. Páll Helgason lýsir útsýninu frá nýja hrauninu yfir höfnina og breyttum aðstæðum þar, en mjög hvasst var, þegar þessi lýsing var gerð, suðaustan beljandi með rigningu.
6. Arnþór les smá tilkynningu og þakkir til allra landsmanna.
Heildartími 37.17 mín.
27.2.2010 | 13:30
Eyjapistill 25. janúar 1974
Umsjón: Arnþór og Gísli Helgasynir.
1. Arnþór hefur þáttinn og segir frá þakkarguðsþjónustu í Eyjum 23. janúar 1974, greinir frá ástandi kirkjuorgelsins og segir fleiri fréttir.
2. Arnþór segir fréttir af Sparisjóði Vestmannaeyja og les tilkynningu.
3. Gísli spjallar við Jónas Guðmundsson um íbúðir fyrir aldraða, sem Rauði krossinn starfrækir við Brekkulæk og Síðumúla í Reykjavík.
4. Gísli talar frá Eyjum og segir fréttir þaðan.
Gísli ræðir við Arnar Sigurmundsson forstöðumann skrifstofu Viðlagasjóðs um starfsemi skrifstofunnar og starfsemi sjóðsins í Eyjum.
Líklega vantar aftan á þáttinn. Hann endar nokkuð snubbótt.
Heildartími 16.36 mín.
27.2.2010 | 13:12
Eyjapistill 4. febrúar 1974
Umsjón: Arnþór og Gísli Helgasynir.
1. Árni Sigfússon segir fréttir frá Vestmannaeyjum. Árni var fréttaritari Eyjapistils í Eyjum frá áramótum 1974. Árni fjallar aðallega um félagsstarf í Eyjum. Þegar þessi þáttur er yfirfarinn 11. mars 2008 er Árni bæjarstjóri Reykjanessbæjar.
2. Gísli fer í heimsókn í íbúðir aldraðra við Síðumúla.
Ræðir fyrst við Bjarneyju Steingrímsdóttur, spyr hvenær hún hafi orðið fyrst vör við gosið. Spjallar um fleira. Átakanlegt þegar hún lýsir viðskilnaðinum við heimili sitt.
Gísli hittir á Brekkulæknum Ágúst Þórðarson á Aðalbóli, en hann var yfir fiskimatsmaður og um skeið formaður Verkalýðsfélags Vestmannaeyja. Ágúst segir frá því hvernig honum hafi reitt af eftir gosið. Ágúst minnist á sumardvöl í Noregi og að Löngumýri í Skagafirði.
3. Gísli spjallar við Harald Guðnason bókavörð um bókasafnið og fleira.
Heildartími 14.42 mín.
27.2.2010 | 13:04
Eyjapistill 11. febrúar 1974
Umsjón: Arnþór og Gísli Helgasynir.
1. Gísli hefur þáttinn með almennu spjalli um Eyjapistil í tilefni þáttarins, en nú er liðlega ár liðið frá upphafi Eyjapistils. Þessi þáttur er nr. 255. Rifjað upp úr fyrsta þættinum um tilgang þáttarins. Segir fleiri fréttir og frá könnun um hversu margir hyggðust snúa til Eyja og hvenær. Spjallar frekar um tilgang þáttarins.
2. Anna Þorsteinsdótir les tilkynningu frá kvenfélaginu Líkn. Les í gegnum síma án þess að vita að þessu yrði útvarpað beint. Arnþór segir frá fleiru.
3. Árni Sigfússon talar frá Eyjum og segir m.a. frá stofnun nýs blaðs og fleiru.
4. Gísli ræðir úti í Eyjum við Hjört Hermannson formann byggingafélagsins Hamars um stofnun félagsins og fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum þess. Hjörtur svarar því hvers vegna þeir hafi valið svæðið vestast á Hamrinum til bygginga.
5. Arnþór segir fleiri Eyjafréttir, einkum af bátum.
Þá eru fréttir af Fesinu og Gúanóinu.
Heildartími 20.15 mín.
27.2.2010 | 12:58
Eyjapistill 11. mars 1974
Umsjón: Arnþór og Gísli Helgasynir.
1. Arnþór kynnir þáttinn, segir frá fólki, sem fær aðsetur í gamla sjúkrahúsinu og les tilkynningu frá Viðlagasjóði um að hann hætti ábyrgð á húsum í Eyjum frá og með 1. apríl. Einnig minnst á kynningu á byggingaráætlun Vestmannaeyja o. fl., m. a. um afhendingu húsa frá Kanadamönnum til Vestmannaeyinga í Hafnarfirði.
2. Leikið lagið Heimaey eftir Árna Sigfússon af plötunni Eyjaliðið, sem kom út í gosinu. Árni Sigfússon les fréttir frá Eyjum og segir m.a. frá væntanlegum bæjarstjórnarfundi, aflabrögðum, hljómsveitinni Logum, sem komin er til Eyja, frá niðursetningu húsa við Faxastíg og fleira.
3. Gísli ræðir úti í eyjum við Ragnar Guðmundsson rakara (Ragga rakara) um rakarastörf, störf Ragga í gosinu og fleira, en Raggi var bunustokksmaður og gosvörður. Hann lýsir hraunáhlaupi nr. 2. Spjallið er mjög skemmtilegt. Þá segir Ragnar álit sitt á hraunkælingunni og kynnum sínum af gosinu. Einnig frá því hvernig "sá dökki" kvaddi hann.
Heildartími 20.21 mín.
27.2.2010 | 12:54
Eyjapistill 18. mars 1974
Umsjón: Arnþór og Gísli Helgasynir.
Í upphafi leikið kínverskt lag.
1. Arnþór kynnir lagið og þáttinn og segir fréttir, m.a. frá hátíð kvenfélagsins Heimaey á Hótel Sögu í Reykjavík. Fréttir af Sparisjóðnum o. fl. Tilkynning til þeirra, sem ætla að flytja heim.
2. Árni Sigfússon les tilkynningu frá bæjarstjórninni, les í hljóðveri í Reykjavík. Gísli spjallar við Árna um bæjarstjórnarfund, sem haldinn var á föstudaginn var (15. mars). Gísli les aðra tilkynningu frá bæjarstjórninni.
3. Arnþór segir frekar frá afhendingu Kanadahúsa. Hann ræðir við Magnús Bjarnason framkvæmdarstjóra Skeljafells, en það fyrirtæki reisti húsin. Magnús lýsir húsaskipan.
4. Árni Sigfússon og Gísli Helgason fara til Eyja og fjalla um byggingaráætlun Vestmannaeyja og spjalla við fólk á förnum vegi í Eyjum.
Fyrst heyrist í Sigga Reim, en hann neitaði að spjalla við okkur. Árni og Gísli spyrja fólk á förnum vegi.
Spjallað við Georg Tryggvason bæjarlögfræðing um framkvæmdir vestur í hrauni o. fl.
Spjallað við Valtý Snæbjörnsson byggingafulltrúa um nýtingu lóða í gamla bænum.
Rætt við Pál Zophaníasson, bæjartæknifræðing, nánar um byggingaáætlunina og um framtíðarþróun bæjarins, lóðanýtingu, gerð vikurjarðvegs vestur í hrauni og viðbætur við bæinn.
Georg Tryggvason segir frá kostnaði við að setja nýjan jarðveg í hraunið.
Georg Tryggvason er spurður um áhugaleysi Eyjamanna á byggingaáætluninni. Valtýr Snæbjörnsson og Páll Zophaníasson svara einnig svipuðum spurningum. Fólk á förnum vegi spurt sömu spurninga. Fram kemur óánægja með að landið vestur í hrauni hafi verið fyllt upp með vikri.
Farið að lokum upp á gamla sjúkrahúsið þar sem áætlunin var kynnt.
Heildartími 30.04 mín.
27.2.2010 | 12:50
Eyjapistill 25. mars 1974 - síðasti Eyjapistillinn
Umsjón: Arnþór og Gísli Helgasynir.
1. Leikið lagið Vestmannaeyjar eftir Arnþór Helgason. Arnþór leikur á rafmagnsorgel, Gísli á blokkflautur og Sigurður Þórarinsson á trommur. Af Eyjaliðsplötunni.
2. Arnþór les fréttir frá Eyjum. Segir fréttir af ráðstefnu um búsetu í Eyjum.
3. Gísli ræðir við Jóhannes Kristinsson hjá Steypustöðinni um útvegun byggingarefnis og um notkun þess, einnig um hvað kemur undan hrauninu og um málefni Steypustöðvarinnar.
4. Leikið lagið Heima eftir Oddgeir og Ása. Haukur Mortens syngur. Gísli les ljóðið Nótt í paradís eftir Hafstein Stefánsson. Hann orti það úti í Bjarnarey.
5. Arnþór ræðir við Þorstein Víglundsson sparisjóðsstjóra um hvernig Sparisjóðnum reiddi af uppi á landi og heimflutning hans. Hann segir frá mikilli skilvísi Eyjamanna, aukinni inneign í sjóðnum og lánveitingum Seðlabankans, sem Sparisjóðurinn hafði milligöngu um. Þá spjallar Þorsteinn um byggðasafnið, en það er nú geymt hjá Þjóðminjasafninu.
6. Gísli segir frá kjörskrá, sem lögð hefur verið fram í Eyjum.
7. Leikið lagið Eyjan mín eftir Árna Johnsen. Hljómsveit og kór Eyjapistils flytur, Árni Johnsen, Arnþór og Gísli og Árni Gunnarsson fréttamaður.
8. Gísli les skeyti frá Félagi Vestmannaeyinga í Keflavík.
9. Gísli segir fréttir frá Jóhanni Friðfinnssyni hjá úthlutunarnefnd húsa Viðlagasjóðs. Einnig kveðjur frá Sigurði Þórarinssyni í Hafnarbúðum um gáma til heimflutnings. Einnig upplýst hversu margir eru fluttir til Eyja.
10. Hringd inn tilkynning beint í síma frá Berklavörn í Eyjum.
11. Magnús Magnússon bæjarstjóri gefur yfirlit um helstu framkvæmdir í Eyjum þetta árið. Lokaspurning Gísla um hvort Magnús hafi orðið fyrir vonbrigðum um uppbygginguna í Eyjum.
12. Spurt um verðtryggingu bóta, en frumvarp verður lagt fyrir Alþingi um það mál. Gísli segir fleiri fréttir.
13. Lokaorð Gísla í Eyjapistli.
14. Guðmundur Jónsson syngur lagið Vestmannaeyjar eftir Arnþór Helgason við ljóð Kristins Bjarnasonar. Sungin þrjú erindi, sem ekki hafa verið flutt áður, utan fyrsta erindið.
Heildartími 34.16 mín.
27.2.2010 | 12:09
Eldgosið í Heimaey fyrir 10 árum (útvarpað 24. janúar 1983)
1. Í upphafi heyrast gosdrunur og upphaf Eyjapistils frá 7. febrúar 1973 sem Arnþór kynnir. Þá heyrast meiri gosdrunur og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson kynnir þennan þátt og umsjónarmenn.
2. Leikið þáttarlag Eyjapistils. Gísli kynnir þáttinn og rifjuð er upp frásögn Páls Helgasonar af upphafi gossins, en hann hringdi aðfararnótt 23. janúar þangað sem Arnþór og Gísli bjuggu í Reykjavík ásamt Guðrúnu systur sinni og hennar fjölskyldu. G. H. hljóðritaði samtalið. Úr Eyjapistli 23. janúar 1974.
3. Úr frásögn Jökuls Jakobssonar sem varð einna fyrstur útvarpsmanna á gosstöðvarnar. Frásögn Jökuls var flutt í Ríkisútvarpinu að kvöldi 23. janúar 1973.
4. Úr frásögn Hjálmars Guðnasonar (Hjalla á Vegamótum) sem sá þegar gosið hófst. Ólafur Grens var með honum og hefur lýst því mjög vel í síðdegisútvarpi Rásar 2 23. janúar 2008. Frásögn Hjálmars var flutt í Eyjapistli 23. janúar 1974.
5. Úr viðtali Arnþórs og Gísla við Pétur Guðjónsson á Kirkjubæ. Pétur lýsir því hvenær hann varð fyrst var við gosið. Svar Péturs er bráðskemmtilegt. Úr Eyjapistli 23. janúar 1974.
6. Úr lýsingu Árna Gunnarssonar sem send var beint frá Eyjum kl. 9 um morguninn 23. janúar 1973. Í frásögnina fléttast viðtal við einhvern Eyjamann. Því miður er hans ekki getið.
7. Úr viðtölum Einars Karls Haraldssonar fréttamanns við vestmannaeyinga sem komu með bátum til Þorlákshafnar morguninn 23. janúar. Flutt viðtal við konu með lítið barn sem hrópar á pabba sinn. Hún veit ekkert eða lítið um hvað framundan er.
8. Pétur Pétursson þulur les frétt morguninn 23. janúar um að kirkjubæirnir séu komnir undir hraun og um það hvernig fólk slapp út. Í lok fréttar heyrist stef, sem notað var gjarnan í Eyjapistli á milli atriða.
9. Viðtal Gísla Helgasonar við Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor sem lýsir hvers konar gos hófst í Heimaey. Viðtalið tekið í janúar 1983
10. Fréttaauki Sigurðar Sigurðssonar fréttamanns. Sendur fjórða í gosi, 26. janúar 1973.
11. Viðtal G. H. við Klöru Tryggvadóttur sem segir frá draumi sínum um eldgosið. Viðtalið tekið í Vestmannaeyjum í janúar 1983.
12. Þjóðsagan um af hverju biskupssonur mætti ekki vera prestur í Vestmannaeyjum. Aðalsteinn og Arnþór kynna. Flutt brot úr viðtali við séra Þorstein Lúther Jónsson sóknarprest í Vestmannaeyjum. Úr Eyjapistli 6. febrúar 1973 sem Stefán Jónsson tók.
13. Símtal frá konu sem leggur til að séra Karl Sigurbjörnsson prestur í Eyjum verði beðinn að segja af sér vegna þess að hann er biskupssonur. Þessu viðtali var aldrei útvarpað fyrr en nú.
14. Viðtal Arnþórs Helgasonar við Karl Sigurbjörnsson sem var prestur í Eyjum á þessum tíma um þessa hjátrú og fleira.
15. Aðalsteinn les samantekt um aðstoð ýmissa aðila við vestmannaeyinga á fyrstu dögum gossins og um hjálparstarf þar. Einnig sagt frá erlendri aðstoð.
16. Aðalsteinn les fréttatilkynningu frá almannavarnanefnd í Vestmannaeyjum 7. febrúar 1973 um björgunarstarf.
17. Páll Zophaníasson fyrrum bæjartæknifræðingur í Vestmannaeyjum svarar spurningu Arnþórs hvort rétt hafi verið að leyfa vestmannaeyingum ekki að fara til Eyja í björgunarstörf. Viðtalið tekið úti í Eyjum í janúar 1983.
18. Lesin tilkynning úr Eyjapistli í febrúar 1973 um umferðarfræðslu til handa vestmannaeyingum í Reykjavík á vegum lögreglunnar.
19. Sagt frá viðbrögðum vestmannaeyinga þegar þeir yfirgáfu Heimaey í skyndi 23. janúar 1973. Aðalsteinn les úr bók Árna Johnsen um eldgosið, frásögn um Rúnu frá Grundabrekku.
20. Fluttur dæmigerður Eyjapistill þar sem lesin eru bréf og tilkynningar um týnda muni. Fólk lætur vita af sér svo að vinir og ættingjar geti haft samband. Þátturinn gerður úr gömlum handritum Eyjapistils í tilefni þessa þáttar.
21. Frá 23. mars 1973. Frásögn sem Árni Gunnarsson fréttamaður sendi frá Eyjum, en þá kvöldið áður hafði hraunflóð fallið á bæinn.
22. Páll Zóphaníasson bæjartæknifræðingur fyrrum segir frá komu sinni til Vestmannaeyja 23. mars 1973 eftir þessi ósköp. Í frásögn hans kemur fram hversu þýðingarmikil hraunkælingin var.
23. Fréttaauki Einars Karls Haraldssonar frá 27. mars 1973 en þar kemur fram að menn óttist að hraunið renni í höfnina. Frásögn af bruna Hraðfrystistöðvarinnar. Undir heyrist upptaka af því þegar hraunið mylur undir sig húsin.
24. Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor upphafsmaður hraunkælingarinnar segir frá henni í viðtali við G. H.
25. Aðalsteinn les frásögn um stofnun átthagafélaga vestmannaeyinga uppi á fasta landinu. Sagt frá óvissunni sem þjakaði fólk.
26. Lesin tilkynning úr Eyjapistli í febrúar um týnda muni.
27. Upprifjun úr Eyjapistli 15. apríl 1973. Gísli Helgason og Þorbjörn Sigurðsson tæknimaður Ríkisútvarpsins fóru í heimsókn í Ölfusborgir 10. apríl en þar var fjölmenn byggð vestmannaeyinga í orlofshúsum þar. Rætt við fólk þar um lífið og tilveruna. Þar á meðal 11 ára gamlan pilt.
28. Rifjað upp úr sama þætti viðtal við Önnu Sigurðardóttur frá Vatnsdal í Vestmannaeyjum. Hún lýsir á áhrifamikinn hátt tilfinningum sínum þegar húsið hennar fór undir hraun. Þá er bætt við spjalli við Önnu sem G. H. tók úti í Vestmannaeyjum við rætur Helgafells í janúar 1983. Anna var fyrst ásamt eiginmanni sínum Högna í Vatnsdal til þess að tilkynna flutning til Eyja eftir gos. Leikið fyrsta erindi lagsins Vestmannaeyjar eftir Arnþór Helgason. Ljóðið eftir Kristin Bjarnason. Guðmundur Jónsson syngur við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar.
29. Arnþór segir frá bátaflota vestmannaeyinga í gosinu og aflabrögðum þar. Segir frá vorinu í Eyjum og flutt brot úr spjalli hans við Friðrik Jesson forstöðumann Náttúrugripasafns Vestmannaeyinga þar sem hann lýsir komu hinna fiðruðu vestmannaeyinga aftur heim. T. d. sagt frá því þegar Lundinn kom og leitaði að gömlu holunum sínum. Úr Eyjapistli 22. júní 1973.
30. Sagt frá uppgrefti húsa í Eyjum og hvað þá kom í ljós. Páll Helgason lýsir Presthúsum, hvernig þau komu undan öskunni og moðsuðunni svokölluðu, en húsin morknuðu og soðnuðu undan þeim mikla hita sem gjallið eða askan einangraði við húsin. Úr Eyjapistli 26. júní 1973.
31. Úr spjalli G. H. við Sigurð Þórðarson (Sigga Þórðar) á Eyjaberginu. Siggi spjallar um samgöngur við Vestmannaeyjar og segir að nú þurfum við nýja ferju. Úr Eyjapistli 30. júní 1973. G. H. ræðir við Ólaf Runólfsson (Óla Run) framkvæmdastjóra Herjólfs um samgöngur og flutninga með Herjólfi. Viðtalið tekið í janúar 1983.
32. Úr gosskýrslum almannavarna 3. júlí 1973. Þar er fullyrt að gosinu sé lokið. Sagt frá för nokkurra manna ofan í gýginn. Súlli Johnsen (Hlöðver Johnsen) segir frá förinni ofan í gýginn. Viðtalið við Súlla tekið í janúar 1983.
33. Leikið lokaerindi Vestmannaeyja eftir Arnþór Helgason og Kristin Bjarnason. Guðmundur Jónsson syngur við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar. Heildartími: 74 mín.
Bloggfærslur 27. febrúar 2010
Um bloggið
Eyjapistill
Tenglar
Mínir tenglar
- Hljóðbók.is
- Arnþór Helgason bloggar
- Eyjafréttir.is Fréttir vikublað Vestmannaeyja
- Heimaslóð.is Skemmtilegur vefur um menningu Vestmannaeyja
- Átvr Átthagafélag Vestmannaeyinga á reykjavíkursvæðinu
- Hljóðrit Á síðunni er margvíslegt hljóðritað efni frá Arnþóri Helgasyni. Þar á meðal er sitthvað um Vestmannaeyjar undir flokknum Sögur af sjó.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.10.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar