Um Eyjapistil - 7. febrúar 1973 til 25. mars 1974

Umsjónarmenn Eyjapistils voru Arnþór og Gísli Helgasynir frá Vestmannaeyjum.
Eyjapistill var á dagskrá Ríkisútvarpsins frá 7. febrúar 1973 til 25. mars
1974. Þáttunum var ætlað að greiða fyrir samskiptum Vestmannaeyinga
eftir að þeir urðu að flýja jarðeldana í Vestmannaeyjum sem hófust
aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar 1973 og lauk 3. júlí þá um sumarið.
Bloggsíðan verður þróuð eitthvað áfram og væntanlega bætt inn á hana
myndum sem eiga við efni pistlanna. Þá væri mjög vel þegið ef fólk lumaði á einhverju efni, t. D. Hljóðupptökum sem tengjast útvarpsþáttunum Eyjapistill.
Eyjapistlarnir voru fyrsta tilraun Ríkisútvarpsins til eins konar
landsbyggðarútvarps og samfélagslegrar þjónustu. Þeir mörkuðu því djúp
spor í sögu stofnunarinnar.
Nokkur orð um Eyjapistil
Nú þegar eyjapistlarnir, sem varðveist hafa, eru orðnir aðgengilegir á Netinu, þykir mér rétt að fylgja þeim úr hlaði með nokkrum minningarorðum.
Stefán Jónsson, fyrrverandi fréttamaður, var mikill vinur föður okkar, Helga Benediktssonar, athafnamanns í Vestmannaeyjum, og við Arnþór höfðum kynnst honum mjög vel. Stefán var dagskrárfulltrúi hjá útvarpinu og kom með þá hugmynd að hafa sérstakan þátt þar sem birtar væru upplýsingar, fréttir og tilkynningar til Eyjamanna og að þeir gætu náð saman í gegnum þennan þátt. Ég hafði tekið eftir að í annarri viku goss var farið að auglýsa þáttinn Eyjapistil skömmu eftir veðurfréttir kl. 22:15 á hverju kvöldi, en alltaf féll þátturinn niður.
Svo var það mánudaginn 5. febrúar í matartímanum að síminn hringdi sem oftar og Arnþór svaraði. Þar var þá Magnús H. Magnússon, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og heilsaði hógværlega og spurði: „Viljið þið bræður koma fram í Eyjapistli með eitthvað efni?“ Arnþór varð harla glaður við, tók vel í málið og sagði jafnframt að við ættum í fórum okkar allnokkuð af upptökum, sem frjálst væri að nota. Magnús þakkaði kærlega fyrir og þeir Arnþór kvöddust.
Rétt tæpum klukkutíma síðar, svona um hálf tvöleytið, hringdi síminn aftur og þávarð ég fyrir svörum. Þar var þá Stefán Jónsson og ég bjóst við að hann ætlaði að ræða við mig um annað sem við höfðum í deiglunni, en það var nú aldeilis ekki. Stefán vatt sér beint að efninu og spurði: „Hefur Magnús bæjarstjóri haft samband við ykkur?“ Ég játti því og Stefán hélt áfram: „Og hvað sagði hann?“ Ég sagði Stefáni það og þá varð ógnvænleg þögn í símann og maginn tók að herpast saman, ég hafði ekkert sofið í tæpa tvo sólarhringa bæði af áhyggjum og amstri.
Þá sagði Stefán:
„Jæja, Magnús er svolítið ruglaður þessa dagana eins og raunar allir þið Vestmannaeyingar, en frá og með morgundeginum eigið þið bræður að sjá um fimmtán mínútna langan þátt í útvarpinu á hverjum einasta degi, sem heitir Eyjapistill. Ekki grípa frammí, það er búið að ákveða þetta og það er ekkert undanfæri, þetta verður enginn vandi, þið fáið þá hjálp sem þið þurfið. Þið skiptið þáttunum í nokkur efnisatriði, kveðjur, tilkynningar, fréttir og spjall og þetta verða sirka tveir tímar á dag, sem fara í þetta hjá ykkur.“
Ég hrópaði í símann „Þú lýgur þessu, Stefán.“
Hann svaraði: „Þetta er ákveðið mál og þið mætið niður á Skúlagötu á sjöttu hæð klukkan eitt á morgun, sjáumst“ og svo skall símtólið á.
Ég henti símanum frá mér og hrópaði yfir Arnþór og mömmu hvað hefði gerst. Arnþór varð alveg frávita af angist eins og ég og við jusum úr okkur í smá tíma og móðir okkar tók þátt í þessari örvæntingu, en svo fórum við að hugsa málið. Ég trúði þessu ekki og þegar ég fór með vini mínum, Lárusi Sigurðssyni sem var ein mín mesta hjálparhella upp í Mosfellssveit að koma dóti fyrir í geymslu, sagði ég það sem hvern annan brandara að nú ætti ég frá og með morgundeginum að verða útvarpsmaður. Félagi minn hló sig máttlausan og við skemmtum okkur konunglega.
Vinna hófst svo við Eyjapistilinn raunar tveimur dögum síðar,þann 7. febrúar og Stefán Jónsson fylgdi honum úr hlaði.
Arnþór sá svo um fyrsta þáttinn undir okkar stjórn 8. fegbrúar og við Arnþór urðum líklega landsfrægir á einni nóttu.
Hér er rétt að gera smá útúrdúr og koma með haldbæra skýringu á því af hverju við Arnþór vorum látnir taka þetta að okkur.
Eftir því, sem Stefán sagði mér, fór hann ásamt þáverandi útvarpsráðsmanni, Stefáni Karlssyni, á fund bæjarstjórnar Vestmannaeyja til þess að ræða hvernig útvarpið gæti komið til móts við Eyjamenn.
Þá kviknaði hugmyndin að Eyjapistlunum, en það fannst enginn til þess að hafa umsjón með þeim. Stefán sagði það skipta öllu máli að fá einhverja, sem allir Eyjamenn þekktu og gætu haft samband við og nefndi okkur bræður. Eitthvað voru sumir bæjarstjórnarmenn í vafa um hvort við værum réttu mennirnir í þetta og töldu vafasamt að við myndum taka þetta að okkur. Stefán sagðist ábyrgjast að við skyldum gera þetta og hann gerði það svo að um munaði.
Fyrsti þátturinn var svo fluttur þann 7. febrúar eins og áður segir. Stefán stjórnaði honum, skýrði tilganginn með þættinum og hverjir myndu standa að honum, en auk okkar hafði Gunnar Sigurmundsson, prentari (Gunnar prent), tekið að sér efnisöflun. Arnþór sá svo um þáttinn þann 8. febrúar, en frá og með föstudeginum 9. kom ég inn í þáttinn, og við lýstum því yfir í galsaskap að loksins hefðu Vestmannaeyingar eignast sitt eigið, frjálsa útvarp.
Eyjapistill þótti mikil nýlunda á þeim tíma. Við lögðum mikla áherslu á að hafa yfirbragðið með léttu móti, við spjölluðum beint við hlustendur, lásum tilkynningar og spjölluðum um það sem var á seyði. Þá áttum við stundum til að útvarpa samtölum við hlustendur beint. Við vorum alltaf með segulbandstæki við símann og oft urðu samtölin mjög skemmtileg. Einnig vorum við með mörg viðtöl og reyndum að láta skemmtiefni fljóta með eftir því sem kostur var.
Snældutækin voru nýlega komin á markað sem almenningseign. Við urðum fyrstir til að nota slík tæki við öflun viðtala og efnis hjá Ríkisútvarpinu. Þetta var að mörgu leyti miklu léttara þó að tóngæðin væru ef til vill ekki eins og skyldi. Tækið, sem við notuðum mest er nú komið á Byggðasafnið í Eyjum.
Stefán var okkar leiðbeinandi og mikið ósköp var hann góður kennari. Ég man þó eftir að einu sinni fauk verulega í mig við hann, en ég gat ekkert sagt, af því að hann hafði rétt fyrir sér. Svoleiðis var að í mínum fyrsta þætti hringdi ég til Hveragerðis í Sigurgeir Jónsson frá Þórlaugargerði kennara og hann sagði frá skólastarfinu þar og annars staðar austan fjalls. Ég var alveg sprengmontinn eftir þetta fyrsta viðtal, taldi þetta í hrifningarvímunni útvarpssímtal aldarinnar.
Svo þegar samsetning þáttarins hófst, og þriðjungur samtalsins var búinn sagði Stefán stopp. Ég maldaði í móinn og sagði að það væri heilmikið eftir enn. Stefán sló krepptum hnefa í borðið og sagði með þjósti: „Afgangurinn er bara kjaftæði sem skiptir engu máli. Ég var búinn að segja þér að þátturinn á að vera samsettur af mörgum smáum atriðum, annars verður þetta hundleiðinlegt útvarpsefni.“
Einn var sá liður sem var daglegur í Eyjapistli til að byrja með, en það voru bænarorð, sem sóknarprestarnir, þeir séra Þorsteinn Lúter Jónsson og Karl Sigurbjörnsson fluttu eftir hvern þátt. Bænirnar voru flestar lesnar á segulband en stundum fluttar beint. Við gárungarnir hjá útvarpinu kölluðum þær handbænir, sem fluttar voru beint, en þær sem voru á segulbandi vélbænir.
Séra Þorsteinn flutti fyrstu bænarorðin og mér er það mjög minnisstætt, þegar séra Karl mætti fyrst niður á Skúlagötu.
Þannig var að mikill erill var hjá okkur fyrstu dagana og við vorum í herbergi með Stefáni Jónssyni. Það var einn daginn, sem við allir vorum á bóla kafi, Stefán að skipuleggja með okkur og talsvert rennirí af fólki, að inn kemur dökkhærður, ungur og lágvaxinn maður, mjög feiminn að sjá, og sest út í horn. Þegar hann hafði setið smá stund og við þremenningar búnir að ljúka okkur af, vindur Stefán sér að manninum og segir snöggt:
„Hver ert þú?“
Maðurinn svaraði hikandi: „Ég á að lesa hér.“
Stefán svarar: „Já einmitt og hvað?“
Þá stamar maðurinn: „Ég, ég, er sko prestur.“
„Já, þú ert prestur,“ svaraði Stefán „og hvað með það.“
„Ég er hann séra Karl.“
Ýmsir fóru að rifja upp gamla hjátrú um að ekki mætti biskupssonur verða prestur í Vestmannaeyjum, en eins og menn vita, þá er séra Karl sonur herra Sigurbjörns Einarssonar. Séra Þorsteinn kvað þennan orðróm niður, en þó var einn og einn að hringja eins og t.d. konan, sem hringdi og ráðlagði séra Karli að segja af sér svo að hörmungunum í Eyjum linnti. Ég dáðist að því hvernig séra Karl tók þessu af stakri þolinmæði og ljúfmennsku. Hann vann fljótlega hug og hjörtu Eyjamanna, sem honum kynntust.
Fljótlega tók Eyjapistillinn á sig ákveðið form. Við lásum iðulega margar tilkynningar um týnda muni og auglýsingar okkar eftir svörtum plastpokum urðu fleygar um land allt. Sumir spurðu af hverju Vestmannaeyingar hefðu notað svarta plastpoka, ekki venjulegar töskur eða umbúðir.
Mér eru margar tilkynningarnar í fersku minni. Einn auglýsti eftir svörtum plastpoka en þar voru í norsk biblía, sultukrukkur, rúmföt, lampi og hnífapör. Þá auglýsti ein kona eftir dýrindis postulínslampa, sem hafði farið með tilteknum báti á sínum tíma til Þorlákshafnar. Skipstjórinn á þeim báti hringdi miður sín í okkur og sagðist hafa sett lampann fram undir hvalbak og reynt að hlífa honum eftir föngum, en því miður hefði hann mölbrotnað og hann gæti skilað brotunum fremur en engu.
Eftir að Eyjapistill hófst, auglýstum við ávallt heimasímann okkar. Segja má að síminn hafi gengið látlaust allan sólarhringinn fyrstu mánuðina. Menn skeyttu ekkert um hvort þeir hringdu að nóttu eða degi. Ég tók það ráð að hafa símann við rúmið og kveikt á útvarpinu, ef eitthvað kæmi upp á. Menn hringdu til að lýsa ósköpunum, en aðrir þurftu bara einhvern til að tala við.
Ég man eftir konu, sem hringdi. Hún var uppi á landi í lítilli íbúð með mörg börn sín. Maðurinn hennar var úti í Eyjum og húsið þeirra var að fara undir hraun. Hún hágrét í símann og þrábað mig um að leggja það til að allar þessar Eyjakerlingar, sem væru uppi á landi yrðu skornar á háls, þetta þjónaði hvort sem er engum tilgangi. Arnþór tók við mörgum svipuðum símtölum frá fólki í algjörri örvæntingu og einu sinni hringdi kona í hann að austan rétt undir morgun og kvartaði yfir að sjónvarpið sæist illa austur á landi.
Rauði krossinn og fleiri aðilar veittu ómetanlega hjálp ásamt prestunum okkar, sem höfðu mörgu að sinna. Ég man líka eftir því að þegar við sögðum frá því að öllum börnum og unglingum væri boðið til Noregs á vegum Norsk Islandsk Samband og norska Rauða krossins, þá urðu viðbrögðin alveg ótrúleg. Norðmenn bjuggust við svo sem níu tugum barna, en um 900 börn gáfu sig fram. Þegar Norðmennirnir sáu listann, sátu þeir stjarfir í tíu mínútur, en svo sagði Hans Hög, formaður norska Rauða krossins: „Jæja, eigum við ekki að fara að taka til starfa?“
Þessar sumardvalir tókust með afbrigðum vel og þegar okkur Arnþóri ásamt þeim Magnúsi bæjarstjóra og Mörtu konu hans var boðið til Noregs að skoða dvalarstaði barnanna, gátum við ekki orða bundist af hrifningu. Ég man eftir að á leiðinni út voru í þotunni um 50 7 - 8 ára gamlir krakkar. Við Magnús og Marta fórum fram í og heilsuðum upp á þá. Mörg lítil höndin læddi sér í lófa okkar. Lítil stelpa spurði mig: „Hvernig á maður að tala í Noregi?.“
Ég man einnig eftir fjölda af söfnunum, sem efnt var til og þeim stórhug, sem allar Norðurlandaþjóðirnar sýndu í garð okkar Vestmannaeyinga.
Svo urðu nokkrar skemmtilegar uppákomur, viljandi eða fyrir misskilning.
Í fyrrgreindri Noregsferð vorum við Arnþór eins og óbreyttir fréttamenn. Samt báru Norðmenn okkur á höndum sér, en þó kom dulítið atvik fyrir, sem eftir á er spaugilegt, en var ekkert fyndið á meðan á því stóð. Magnúsi og Mörtu ásamt fleirum var boðið í veislu í móttökuhúsi borgarstjórnarinnar í Osló á Holmenkollen. Við Arnþór flutum með.
Þegar allir höfðu heilsast innvirðulega, kom einhver framámanneskja borgarstjórnarinnar til okkar, sennilega forsetinn, heilsaði og spurði hverjir við séum. Við sögðum til okkar. Hún kvað okkur ekki vera á gestalistanum og það væri mjög óeðlilegt að fréttamönnum væri boðið í svona fína móttöku. Við reyndum að gera okkur ákaflega merkilega í augum hennar og útskýrðum hvaða mikilvæga hlutverki við gegndum og að hver einasti Íslendingur vissi hverjir við værum. Þegar konan áttaði sig á að við vorum heimsfrægir heima á Fróni, lét hún kyrrt liggja og okkur var vísað til sætis. Þarna átum við dýrindis hádegisverð. Það voru þrjú glös á borðinu, eitt með vatni, annað með hvítvíni og það þriðja með rauðvíni. Ég gerði allt vitlaust, drakk úr vatnsglasinu, þegar ég átti að drekka rauðvínið og fékk mér svo hvítvín, þegar ég átti að drekka vatn. Borðdaman mín var miður sín fyrir mína hönd og mér leið sárlega illa. Ekki veit ég hvernig Arnþóri reiddi af, en það hefur sennilega bjargað honum að hann sá ekki glóru og hans borðnautur hjálpaði honum, en ég reyndi eftir föngum að sýnast eins vel sjáandi og mér var unnt. Ósköp var ég feginn þegar þessari veislu lauk, en maturinn var frábær.
Það var þegar mesta hraunflóðið skall á bænum og færði allt í kaf austur í bæ. Páll bróðir hringdi í mig klukkan hálf sex um morgun og lýsti fyrir mér ástandinu. Hann sagði að hraunið þokaðist að jafnaði þrjá til fjóra metra á klukkustund. Daginn eftir hafði ég það eftir Páli að hraunið rynni um þrjá til fjóra metra að jafnaði á hverri mínútu. Að vonum hringdi Páll ekki par ánægður með ýkjur litla bróður og krafðist þess að ég leiðrétti þetta og bæði sig opinberlega afsökunar, af því að félagar hans úti í Eyjum hefðu gert mikið grín að sér fyrir vikið. Svo vel vildi til að maður úr Borgarfirðinum, Jóhannes Benjamínsson, hafði sent okkur vísu af því að ég hafði ættfært hann á einhvern hátt, sem honum líkaði ekki. Ég sá mig tilknúinn að biðja Pál afsökunar á þessum ýkjum mínum og fór svo með eftirfarandi vísu Jóhannesar:
„Ekki batna bræður enn,
blandna þræði spinna.
Hraðlygnari heiðursmenn
hægt er ekki að finna.“
Þegar farið var með skipulögðum hætti að fara inn í hús og bjarga þaðan ýmsu og athuga um ástand þeirra, voru margir hræddir um að einhverju yrði stolið og fengum við margar upphringingar, þar sem menn báru sig upp við okkur. Einn þeirra, sem vann við þetta verk úti í Eyjum kom ásamt félögum sínum að húsi á Brekastígnum. Á útidyrahurðinni var eftirfarandi vísa:
„Heyrið vinir, hlustið á.
Hér er heldur fátt að sjá.
Vatn er hér og hiti á
en hvorki vín né mat að fá.“
Þegar svona miklir atburðir eins og gosið verða, komast á kreik þjóðsögur af ýmsu tagi. Skemmtileg saga barst okkur um hvernig allt þetta byrjaði, en staðreyndin er sú, að Óli Grens og Hjálmar Guðnason sáu gosið hefjast og er þetta til í samtali, sem Arnþór tók við Hjálmar í Eyjapistli á ársafmæli gossins. En þjóðsagan var eftirfarandi:
Það var sagt að gamall maður á Elliheimilinu, hann Mundi í Draumbæ, hefði haft á orði að hann ætlaði upp í kirkjugarð að vekja upp draug. Gætur voru hafðar á Munda, en hann slapp upp í kirkjugarð, gekk að leiði einu og hóf særingar. Þegar hann hafði þulið góða stund, heyrir hann drunur og sér eldbjarma bera yfir Helgafellið. Mundi hélt að nú hefði hann vakið upp þann vonda og fór á móti eldinum og reyndi að kveða hann niður, en úr þessu varð gos. Þá sagði sagan að Púlli hefði fundið eitthvað á sér og viljað komast burt og eins er draumur Klöru Tryggvadóttur skýrt dæmi um fyrirboða. Jón Ó. E. Jónsson sagði Arnþóri rúmlega mánuði fyrir gos frá ókennilegum sprungumyndunum austur á Urðum og kvað mikið vera ef eitthvað kæmi ekki úr þeim.
Uppi á fastalandinu mynduðust byggðakjarnar Vestmannaeyinga, t.d. á Suðurnesjum, Selfossi, Hveragerði og víðar. Á Suðurnesjunum var stofnað félag Vestmannaeyinga, en formaður þess varð Eyþór Þórðarson frá Sléttabóli, en hann var löngu fluttur til lands. Þá stofnuðu Vestmannaeyingar sunnan jökla, sem búsettir voru austan fjalls, félagið Heimþrá, en Kristján Georgsson í Klöpp var formaður þess. Það félag stóð fyrir heilmiklum borgarafundi í Selfossbíói í marsmánuði og kom fjöldi manns þangað.
Við Arnþór áttum mikið og gott samstarf við Eyþór og varð það til þess að við fengum einu sinni ákúru frá útvarpsráði og yfirmönnum okkar hjá útvarpinu.
Þannig var að Eyþór hringdi einn daginn og sagði okkur frá miklu Eyjaballi í Keflavík og bað okkur að auglýsa það vel í Eyjapistli. Við spurðum Eyþór hvort við mættum ekki taka símaviðtal við hann og féllst hann á það. Í samtalinu spurðum við um ballið og hvort allar veitingar yrðu þar. Eyþór sagði það ekki vera, en það gerði ekkert til þótt menn tækju smá brjóstbirtu með sér og það yrði engin athugasemd gerð þótt annar brjóstvasinn bungaði svolítið út.
Þetta fór að vonum mjög fyrir brjóstið á yfirstjórn útvarps. Við vorum þekktir fyrir að láta flest vaða og tókum ekkert eða lítið tillit til þeirra reglna, sem giltu hjá útvarpinu um orðsins list, enda álitum við Eyjapistil útvarp Vestmannaeyinga.
Þannig rak Sigmund bakara í Magnúsarbakaríi í rogastans, þegar hann hringdi í Auglýsingadeild útvarpsins og vildi fá birta eftirfarandi auglýsingu:
„Frá Magnúsarbakaríi Vestmannaeyjum: Opnum eftir mikla hreinsun á vikri og skít. Magnúsarbakarí.“
Auglýsingadeildin vildi ekki birta þetta orðrétt og Simmi hringdi bálvondur í Arnþór og kvartaði. Að sjálfsögðu birti Arnþór auglýsinguna orðrétta.
Fjölmargir voru iðnir að leggja okkur lið og gæti ég minnst margra. Ég minnist einna helst hans Hjörleifs Hallgríms í Bláfelli, sem flutti til Akureyrar. Hann sendi frábærar fréttir þaðan og viðtöl. Þá varð Árni Sigfússon, núverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, fréttaritari Eyjapistils í Eyjum í ársbyrjun 1974 og allt til þess að þættirnir hættu á dagskrá Ríkisútvarpsins.
En einn maður varð aðstoðarmaður minn úti í Eyjum í sjálfboðavinnu og ómetanleg hjálparhella. Lárus Sigurðsson sem nefndur var fyrr til sögunnar. Við vinirnir fórum einu sinni til Eyja með Herjólfi. Þá þurfti að hafa sérstakan passa til þess að fá landgönguleyfi. Ég hafði þennan passa en Lárus ekki. Þá bar Pál bróður minn að, kippti Lárusi af landganginum og upp á bryggju og segir: „Lárus, hann er ekkert hér og hefur aldrei komið hingað.“ Sem betur fer var ekkert veður gert út af þessu og Lárus fékk landgöngupassann eins og aðrir sem áttu brýnt erindi til Eyja.
Við vorum nokkuð þekktir fyrir að ganga um með þung tæki á öxlunum. Mér var sögð sú saga af mér að ef mig vantaði far á milli húsa, hafi ég gengið til manna, heilsað og sagðist ætla að taka við þá viðtal, en hvort þeir myndu ekki vilja skutla mér smá spöl fyrst.
Einu sinni hittum við Lárus afar skemmtilegan mann, Súlla Johnsen. Súlli var viðloðandi m. A. Hraunhitaveituna sem komið var á fót og sá um gasmælingar í húsum. Súlli sagði okkur að hann notaði sérstakar túpur við gosmælingarnar en þær voru svo dýrar að þeir gosmælingarmenn urðu að spara þær. Þá fann Súlli út að þegar draslið milli fótanna væri farið að hitna ískyggilega væri gasið of mikið. En hann sagðist eiga von á konunni sinni þá um kvöldið og þá væri að vita hvort allt virkaði. Þessu samtali var útvarpað í fréttaauka Útvarpsins ásamt nákvæmri lýsingu á gasmælingum og hraunhitaveitunni.
Ég gæti haldið áfram að rifja upp minningar frá þessum tímum, en mál er að linni. Eyjapistlarnir voru á dagskrá Ríkisútvarpsins hvern einasta dag frá 7. febrúar 1973 og fram í byrjun júní. Þá fengum við frí á mánudögum. Frá 1. október voru pistlarnir fluttir tvisvar í viku og frá því í febrúar 1974 voru þeir einu sinni í viku.
Þegar allt fór að komast í eðlilegt horf úti í Eyjum þótti ekki eins mikil þörf á þáttunum og áður. Reyndar tók gerð þeirra miklu lengri tíma en upphaflega var áætlað. Ég vann við þá í nær fullu starfi, ofan á annað brauðstrit, fór að heiman um hálf átta á morgnana og kom heim undir miðnætti, auk þess sem ég var margar helgar úti í Eyjum að afla efnis með Lárusi vini mínum.
Á tímabili tók Arnþór aðeins minni þátt í þessari vinnu, hann var á fullu í Háskólanum.
Síðasti þátturinn var svo fluttur þann 25. mars 1974 og þar með lauk fyrsta landshlutaútvarpi á Íslandi.
Mér var þungt fyrir brjósti þegar ég stóð upp frá þeim þætti. Það skapaðist mikið tómarúm og einhvern veginn fannst mér ákveðið skeið runnið á enda, sem mikil eftirsjá væri að.
Eyjapistlarnir urðu alls 261 talsins. Ef þeir hefðu allir varveist, tæki um 90 klst. að hlusta á þá. Þess má til gamans geta að rúmlega 120 kílómetrar af segulböndum fóru í að gera þættina. Alls eru varðveittir 81 af 260 þáttum en hjá Ríkisútvarpinu hafa varðveist rúmlega 50 þættir. Allir eru þeir nú einnig til í Skjalasafni Vestmannaeyja ásamt flestum þeim bréfum sem okkur bárust.
Nú hafa eyjapistlarnir verið færðir á stafrænt form og eru orðnir aðgengilegir á vefnum. Einnig er búið að efnistaka þættina. Það var nokkuð tímafrekt verk bæði að afrita þá og efnistaka.
Leitað var styrkja til þessa verks og veitti Sigtryggur Helgason fyrrum forstjóri Brimborgar 100.000 króna styrk til verksins. Jafn há upphæð fékkst frá Menningar og tómstundaráði Vestmannaeyjabæjar. Kann ég þessum aðilum miklar þakkir fyrir.
Á meðan á gerð Eyjapistlanna stóð, áttum við umsjónarmenn Arnþór og Gísli ákaflega vinsamleg samskipti við alla þá, sem höfðu samband við okkur og við náðum til. Líklega má áætla að um 750 manns hafi komið fram í þáttunum. Ef til vill munu þeir þættir, sem til eru, einhvern tímann þykja góð heimild um mannlífið á meðan á gosinu stóð, og hitt er víst, að með gerð þáttanna og öllu því sem þeim fylgdi dýpkuðu og styrktust þær rætur, sem ég á í Vestmannaeyjum.

Reykjavík, 1. mars 2010,
Gísli Helgason
gislih@internet.is


« Síðasta færsla

Um bloggið

Eyjapistill

Á síðunni eru birtir þeir Eyjapistlar sem varðveittust. Auk þess er birt ítarefni. Sumt var notað í þáttunum en annað hefur ekki birst opinberlega áður. Gísli Helgason sá um að færa þættina á síðuna og skrifaði skýringar við þá. Fjöldi fólks hefur óskað eftir að fá með einum eða öðrum hætti aðgang að þáttunum. Þess vegna er síðan stofnuð. Tilgangurinn er einnig að veita komandi kynslóðum innsýn í það sérkennilega andrúmsloft sem ríkti í Vestmannaeyjum og reyndar um allt land á meðan gosið stóð í Vestmannaeyjum.

Höfundur

Gísli Helgason
Gísli Helgason
Umsjónarmaður eyjapistils 1973 og 1974 ásamt Arnþóri Helgasyni.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband